Um Lífsmótun

Árið 2001 keyptu hjónin Cornelia og Aðalsteinn Þorsteinsson jörðina Hjalla í Reykjadal, Suður-Þingeyjarsýslu. Strax frá upphafi voru þau ákveðin í því að auk þess að verða heimili þeirra ætti jörðin að þjóna auknu hlutverki. Sem trúaðir einstaklingar, fylgjendur Jesú Krists, litu þau svo á að það væri köllun þeirra að þjóna ákveðnu hlutverki meðal kristins fólks og vera virkir þátttakendur í því að hjálpa sér og öðrum að varðveita og efla sína trú.

2006Árið 2005 hófu hjónin að gefa út litla bók, Lykilorð, sem á rætur sínar að rekja til Þýskalands. Tilgangur og markmið með bókinni er að vera hjálpartæki fyrir fólk sem vill efla sína persónulegu trúrækni, auka þekkingu sína á Biblíunni og dýpka samband sitt við Guð. Lykilorð er gefin út fyrir hvert almannaksár og kemur út í nóvember á hverju ári. Nánari upplýsingar um bókina má finna á sérstöku vefsvæði hennar, lykilord.is og víða annars staðar s.s. eins á facebook.com/lykilord.

Eftir nokkurn undirbúning var loks, í desember 2008, skipulagsskrá samþykkt, kennitala fékkst og formlegt „fyrirtæki“, Lífsmótun, orðið til utan um útgáfu bókarinnar og önnur verkefni sem unnin voru sem hluti af áðurnefndri hugsjón eða köllun. Fyrir valinu varð rekstrarform sem er lítið notað, sjálfseignarstofnun. Líkt og fram kemur í skipulagsskrá Lífsmótunar þá er hlutverk hennar að skóla fólk til fylgdar við kenningar Jesú Krists. Þar sem það er hvorki markmið með því starfi sem unnið er að í nafni Lífsmótunar að það skili hagnaði eða að einstaklingur hagnist þótti rétt að reka Lífsmótun sem sjálfseignarstofnun. Sérstök stjórn tekur ákvarðanir um öll málefni er varða Lífsmótun og ársreikningar eru yfirfarnir og aðgengilegir hjá Ríkisendurskoðun.

Allimar2162_cropped

Allt frá upphafi var ljóst að eitt af þeim atriðum sem vinna þyrfti að til þess að ná markmiðum Lífsmótunar var aðstaða til gistingar. Sem áhugafólk um náttúru og ræktun gengu hjónin Cornelia og Aðalsteinn í átaksverkefnið í skógrækt, Norðurlandsskóga, og skipulögðu nytjaskógrækt á jörðinni. Við það tækifæri gátu þau jafnframt fengið Norðurlandsskóga til samstarfs við sig og til að styrkja gerð sérstakrar tegundar að tjaldsvæði þar sem áhersla var lögð á hólfuð svæði með skjólbeltum. Undirbúningur að tveimur hektara stórum tjaldsvæðum hófst þegar árið 2004 og Cornelia og Aðalsteinn afhentu síðan Lífsmótun tjaldsvæðin tilbúin til afnota, tilbúin til notkunar, árið 2008. Það ár fjárfesti Lífsmótun, með fjárhagslegri hjálp velunnara í aðstöðuhúsi. Hér var um að ræða rúmlega 10 ára gamalt aðstöðuhús sem þarnaðist nokkurra endurbóta eftir vatnstjón. Sumarið 2010 hófst síðan formlegur rekstur almenns tjaldsvæðis á vegum Lífsmótunar á Hjalla. Fyrsta sumarið komu þó aðeins 10 gestir en þeir voru 100 sumarið þar á eftir og hafa gestir líst almennri ánægju sinni með þá aðstöðu sem Lífsmótun bíður upp á. Settir hafa verið upp undirvefir á nokkrum tungumálum sem er sérstaklega ætlað að kynna þennan þátt af starfsemi Lífsmótunar, sjá m.a. tjaldstaedi.lifsmotun.is og camping.lifsmotun.is

Árið 2009 tók Lífsmótun það að sér að hafa forgöngu um komu evrópskra ungmenna í sjálfboðaliðaverkefni á Laugum og í Reykjadal. Á næstu árum komu árlega 2 einstaklingar á aldrinum 18 til 27 ára og dvöldu í 10-11 mánuði. Verkefnin fengu styrk frá Evrópu unga fólksins og voru því byggð þannig upp að þau stæðust viðmið Evrópusambandsins um slík verkefni. Á næstu 6 árum tók Lífsmótun þátt í 7 verkefnum. Tvö verkefni fólust í því að Lífsmótun útvegaði og undirbjó sjálfboðaliða undir verkefni sem bæði fóru fram í Þýskalandi. Í fimm verkefni fékk Lífsmótun senda til sín sjálfboðaliða, tvo í fyrstu fjögur verkefnin en í síðasta verkefnið eingöngu einn. Til þess að skapa sjálfboðaliðunum fjölbreytt verkefni, verðugar áskoranir og tækifæri til þess að verða hluti af nærsamfélaginu fékk Lífsmótun til liðs við sig ýmsa aðila. Stærstan þátt í verkefnunum, fyrir utan Lífsmótun, áttu án efa skólarnir á Laugum, Litlulaugaskóli, bæði leikskóladeildin Krílabær og grunnskóladeildin, og Framhaldsskólinn á Laugum. Á hverju ári gróðursettu sjálfboðaliðarnir líka niður tré fyrir Skógræktarfélag Suður-Þingeyinga auk þess sem margir þeirra áttu sjálfir frumkvæði af óformlegra samstarfi við ýmsa aðra aðila s.s. eins og Kvenfélag Reykdæla og Ungmennafélagið Eflingu. Gamlar færslur frá sjálfboðaliðunum má finna á evs.lifsmotun.is

Í lok árs 2021 keyptu Cornelia og Aðalsteinn allar eignir Lífsmótunar til tjaldstæðareksturs enda var þá reksturinn orðinn umtalsverður en það var aldrei markmið Lífsmótunar að standa í umfangsmiklum fyrirtækjarekstri. Lífsmótun mun því í framtíðinni geta beitt kröftum sínum og athygli að fullu og óskipt til þeirra markmiða sem sett eru fram í stofnskrá stofnunarinnar en megináherslan þar verður sem áður áframhaldandi útgáfa á Lykilorðum.