Skipulagsskrá

SKIPULAGSSKRÁ

fyrir Lífsmótun.

1. gr.

Skilgreining og heiti, heimili og varnarþing.

Lífsmótun er sjálfseignarstofnun með heimili og varnarþing í Þingeyjarsveit.

2. gr.

Eðli Lífsmótunar.

Lífsmótun er byggt á kristnum gildum með kristniboðsskipunina í huga að okkur beri að kenna þeim sem hafa tekið við Jesú Kristi sem frelsara sínum að halda allt það sem hann hefur boðað.

3. gr.

Tilgangur.

Tilgangur Lífsmótunar er að skóla fólk til fylgdar við kenningar Jesú Krists.

4. gr.

Hvernig tilgangi skal náð.

Tilgangi sínum hyggst stofnunin ná með því að:

a) taka þátt í og standa fyrir kristilegri fræðslu í formi fyrirlestra og námskeiða,

b) taka þátt í og standa fyrir kristilegum samverum og mótum,

c) byggja upp dvalaraðstöðu þar sem kristnir einstaklingar geta dvalið til lengri eða skemmri tíma til að stunda kristna íhugun og þegið kristilega ráðgjöf og handleiðslu.

d) gefa út kristilegt efni til fræðslu og trúaruppbyggingar,

e) starfa með Þjóðkirkjunni og öðrum viðurkenndum fríkirkjum og kristilegum félagasamtökum,

f) finna samstarfsaðila og starfsfólk í hinum ýmsu löndum,

Stjórn Lífsmótunar skal semja nánari útfærslu á tilgangi félagsins og hvernig honum skuli náð. Skal sú útfærsla tekin til endurskoðunar eigi sjaldnar en þriðja hvert ár. Útfærsla þessi skal mæla nánar fyrir um framkvæmdina. Fyrstu reglur skulu liggja fyrir innan þriggja ára frá samþykkt skipulagsskrár þessarar.

5. gr.

Stofnfé og stofnendur.

Stofnfé stofnunarinnar er kr. 800.000. Er það lagt til með framlögum velunnara Lífsmótunar.

Stofnfé skal ávaxtað á hávaxtareikningi.

Stofnendur stofnunarinnar eru Aðalsteinn Már Þorsteinsson og Cornelia S Þorsteinsson.

6. gr.

Tekjur.

Tekjur stofnunarinnar eru fyrst og fremst styrkir, gjafafé og fjáraflanir.

7. gr.

Stjórn stofnunarinnar.

Æðsta vald stofnunarinnar er stjórn hennar.

Stjórn stofnunarinnar skal skipuð 5 mönnum og skal hver stjórnarmaður hafa sinn varamann. Kjörtímabil stjórnar- og varamanns er ótímabundið. Láti stjórnar- eða varamaður af störfum velur stjórnin nýjan í hans stað.

Sé stjórnarmaður forfallaður boðar hann sjálfur varamann sinn.

Um leið og einhver lætur af stjórnarstörfum velur meirihluti stjórnar nýjan stjórnarmann í hans stað.

8. gr.

Boðun stjórnarfunda.

Stjórnarfundi skal boða með þriggja sólarhringa fyrirvara hið skemmsta. Boðuninni skal fylgja dagskrá fundarins. Formaður annast boðun stjórnarfunda en varaformaður í forföllum hans. Það veldur ekki ógildi stjórnarfunda þótt boðað sé til þeirra með skemmri fyrirvara. Jafnframt getur meirihluti fundarmanna samþykkt að taka mál á dagskrá sem ekki voru nefnd í fundarboði. Stjórnarmaður sem ekki var mættur á fund sem boðað var til með of skömmum fyrirvara eða mætti ekki á fund þar sem nýtt mál var tekið á dagskrá sem ekki fylgdi fundarboði, getur krafist þess að boðað verði til nýs fundar með tilkynningu til stofnunarinnar sem send skal innan sólarhrings eftir að hann fær vitneskju um afgreiðslu fundarins. Skal ákvörðun fundarins þá ekki framfylgt fyrr en nýr stjórnarfundur hefur verið haldinn og málefnið afgreitt að nýju.

Skylt er að boða stjórnarfund ef tveir stjórnarmenn krefjast þess. Sé ekki boðað til stjórnarfundar innan þriggja sólarhringa frá því að krafa berst þar um geta þeir staðið að boðun fundarins sjálfir.

 

 

9. gr.

Stjórnarfundir.

Stjórnarfundi má halda með eftirgreindum hætti:

a) Með því að stjórnin komi saman á ákveðnum stað.

b) Með fjarfundarbúnaði.

c) Með hverjum þeim hætti sem menn kjósa svo fremi að umræður geti farið fram milli stjórnarmanna um þau málefni sem rædd eru og allir komið sjónarmiðum sínum að áður en málið er afgreitt.

Afl atkvæða ræður niðurstöðu mála á stjórnarfundi.

10. gr.

Fjármál stofnunarinnar.

Stjórn Lífsmótunar ber ábyrgð á fjármálum stofnunarinnar. Skal hún gæta þess að bókhald sé í lögbundnu horfi í hvívetna, svo og ársreikningar. Reiknisár Lífsmótunar er almanaksárið. Fyrsta reikningstímabilið er frá þeim degi sem skipulagsskrá hlýtur staðfestingu Sýslumannsins á Sauðárkróki. Ber stjórnin ábyrgð á að bókhald og ársreikningar séu í lögmætu horfi.

11. gr.

Endurskoðun.

Ársreikningar Lífsmótunar skulu skoðaðir af tveimur skoðunarmönnum sem stjórn Lífsmótunar velur árlega.

12. gr.

Framkvæmdastjórn.

Stjórn Lífsmótunar getur kosið framkvæmdastjóra. Frumkvöðlar Lífsmótunar, Aðalsteinn Már Þorsteinsson og Cornelia Susanne Þorsteinsson skulu þó eiga ævilangt rétt á að gegna því starfi. Stjórn Lífsmótunar er heimilt að veita framkvæmdarstjóra prókúruumboð.

13. gr.

Breytingar á skipulagsskrá.

Til að breyta skipulagsskrá þessari þarf samþykki allra stjórnarmanna. Meirihluti stjórnarmanna geta vikið manni úr stjórn og kosið nýjan ef viðkomandi hefur eða hyggst vinna gegn tilgangi Lífsmótunar.

Allar breytingar á skipulagsskrá þessari þarfnast samþykkis sýslumannsembættisins á Sauðárkróki.

14. gr.

Niðurlagning stofnunarinnar.

Ákveði stjórn að leggja Lífsmótun niður skulu eignir renna til félaga eða stofnanna sem starfa í svipuðum tilgangi og Lífsmótun samkvæmt ákvörðun stjórnar. Til að leggja Lífsmótun niður þarf samþykki allra stjórnarmanna.

Niðurlagning stofnunarinnar þarfnast samþykkis sýslumannsembættisins á Sauðárkróki.

15. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

Fyrsta stjórn stofnunarinnar er valin af stofnendum og samþykkt á stofnfundi.

16. gr.

Staðfesting skipulagsskrárinnar.

Skipulagsskrá þessi tók gildi við samþykki stofnenda og sýslumannsembættisins á Sauðárkróki 2008.