Alfa námskeið

Á rætur að rekja allt aftur á 8. áratug síðustu aldar þar sem það var hluti af starfi kirkju heilagrar þrenningar (Holy Trinity) í Brompton hverfi Lundúnarborgar. Upphaflega var hér á ferðinni 6 vikna námskeið (1x í viku), fyrst og fremst fyrir þau sem nýlega höfðu tekið upp kristna trú. Námskeiðið tók nokkrum breytingum á 9. áratugnum og tók að dreifast til fleiri kirkna í Englandi á þeim tíunda eftir að aukin að áhersla var lögð á að námskeiðið höfðaði almennt sem kynning til allra sem hefðu áhuga á kristinni trú.

Alfa á Íslandi

Þegar vöxtur námskeiðsins var hvað mestur í Englandi tók það að vekja athygli út fyrir landsteinana. Árið 1991 voru haldin 4 Alfa námskeið í London en hámarki náði útbreiðslan í Englandi árið 1998 þegr haldin voru 10.500 Alfa námskeið. Talið er að í kringum 24 miljónir hafi þegar sótt Alfa námskeið.Námsefnið er endurskoðað reglulega en hefur verið þýtt og kennt í yfir 100 löndum á yfir 100 tungumálum. Fyrsta námskeiðið á Íslandi var í boði árið 1997 og síðan þá hafa nokkrar kirkjudeildir á Íslandi boðið reglulega upp á Alfa námskeið.

Alfa á vegum Lífsmótunar

Sjálfseignarstofnunin varð formlega ekki til fyrr en í desember 2008 en stofnendurnir, hjónin Aðalsteinn Már og Cornelia tóku fyrst þátt í að halda Alfa námskeið á Hallormsstað veturinn 1999-2000 og buðu svo sjálf upp á slíkt námskeið á heimili sínu, Hjalla í Reykjadal, veturinn 2002-2003. Í janúar – mars 2010 var í fyrsta sinn boðið upp á Alfa námskeið undir merkjum Lífsmótunar á Laugum í Reykjadal. Lífsmótun bíður nú (þegar þetta er skrifað) upp á Alfa námskeið í Bjarnahúsi á Húsavík í samstarfi við Þingeyjarprestakall og munu upplýsingar um námsefni og glósur fyrir nemendur birtast hér á þessum vef eftir því sem námskeiðinu vindur fram.